Um okkur

Staf fyrir staf er hugarfóstur Hildar, sem er stafrænn vöruhönnuður og snillingur, en hún hefur alveg óútskýranlegan áhuga á ritföngum og skipulagi. Sumarið 2021 lögðu Hildur og eiginmaður hennar, Máni, í vegferð til að víkka út og fegra vöruúrval landans í þessum vöruflokki.
Hildur verður seint þekkt fyrir að tvínóna við hlutina og í byrjun Október fóru í loftið Facebook síða og vefverslun.

Að nokkrum mánuðum liðnum bættist hún Anna við Staf fyrir Staf fjölskylduna. Ótrúlegur styrkur, hugmyndir og drifkraftur sem kom með henni. Hildur hélt að það væri ekki hægt en Anna hefur meiri áhuga á pennum og er endalaus viskubrunnur sem er yfirfullur af upplýsingum og ekki bara þegar það kemur að pennum og pappír.

Hildur og Anna hafa í gegnum tíðina fengið orð á sig fyrir skipulagshæfni og sérvisku þegar að ritföngum kemur. Leiðir þeirra stallna lágu saman í Háskólanum í Reykjavík þar sem þær stunduðu tölvunarfræði og eiga þær það sameiginlegt að eyða dágóðum tíma í Lala-landi, fá ógrynni af (mis)góðum hugmyndum og að vera til í allskonar. .

Hildur Björg

Í lok Covid sumarsins 2021 sátum við hjónin í eldhúsinu og þaulræddum hvað aðþrengd eiginkona í Árbænum gæti tekið sér fyrir hendur. Með bakgrunn í tölvunarfræði var frekar augljóst að ritföng og skipulagsvörur væru málið, en ef það var eitthvað sem ég rak mig á er það að sérþarfir mínar þegar kemur að pennum, litum, bókum og þessháttar minnkuðu ekki vitund við að vera í krefjandi námi. Box og kassar eru í einstaklega miklu uppáhaldi hjá mér, enda verða flestir hlutir að eiga sinn stað á heimilinu.

Þó að heimurinn verði stafrænni með hverjum degi sem líður tek ég góðan, fallegan penna og blað fram yfir tölvuna eða símann. Í náminu sat ég í tímum og handskrifaði glósur með sérvalda penna og stílabækur. Þrátt fyrir að eiga fleiri en einn, og fleiri en tvo kassa fulla af bókum og ritföngum átti ég erfitt með að finna ritföng sem ég var fullkomlega ánægð með – þegar ég dett niður á gersemar hef ég mikla þörf til að deila því með mjög (mis)áhugasömum vinum og vandamönnum, en Staf fyrir Staf er betri útrás fyrir það og nýtist vonandi sem flestum sem hafa staðið í sömu sporum og ég.

Anna Louise

Eins og Hildur hef ég alveg sérstakan áhuga á ritföngum, ég hef prufað flest milli himins og jarðar í þeim efnum og hef átt erfitt með að finna akkúrat það sem hentar mér. Þegar ég hef verið í skóla hef ég handskrifað allar glósur og tölvunarfræðin var þar engin undantekning, enda ekkert leyndarmál að það sem við handskrifum festist betur í minni. Ég kolféll fyrir Staf fyrir Staf því þar fann ég vörur sem ég fann hvergi annarsstaðar, mikið sem ég varð glöð að finna til dæmis extra fína FriXion penna og pennavasa til að festa á bók.

Mér finnst sérstaklega gaman að skipuleggja og á það ekki langt að sækja en langamma mín og nafna, Anna Louise Ásmundsdóttir, var brautryðjandi kjarnakona og einstök fyrirmynd að hafa. Mig langar að láta fylgja tilvitnun í minningargrein hennar frá samstarfskonu hennar: “Hún er mjög glöggskyggn á það, sem vel má fara og skipulagshæfileikar hennar eru óvenjumiklir”. Ég hef sérstaklega gaman af því að lesa um þessa mögnuðu konu og má teljast ansi dugleg takist mér að framkvæma helminginn af því sem hún áorkaði, hún er mér innblástur og mikil hvatning.

Ég hef gert ýmsar tilraunir með rafrænt skipulag, prufað vel flest rafræn tól sem eru í boði og þróað með mér það skipulag sem hentar mér best. Það er þó alhliða og auðvelt að laga að þörfum hvers og eins og ég hef fengið mjög góðar undirtektir þegar ég hef kynnt það fyrir öðrum, meðal annars á því frábæra námskeiði Áfram stelpur! sem er á vegum ADHD samtakanna. Það veitir mér mikla gleði að aðstoða aðra með skipulag og ég hef fulla trú á því að saman getum við fundið skipulag sem hentar og gagnast þér, hvort heldur sem er rafrænt eða á pappír.